mánudagur, maí 29, 2006

C'est la vie.

Það er erfitt að vera ringlaður únglíngur, verð ég að segja.

APC eru í sjónvarpinu, það þykir mér fyndið.

Kv.Andrea

þriðjudagur, maí 23, 2006

Gefðu þig fram!

Já! Þú þarna, þú sem veist upp á þig sökina.

Ég vil að þú vitir að ég var ansi sjokkeruð þegar ég kom inn í herbergið mitt um hálf 9 leitið, og ég botna saman sem ekkert í þessum gjörðum þínum. En fyrst og fremst er ég svo óberandi forvitin að mig langar bara að vita hver þú ert, þú nafnlausi húsgagnafærari... svo gefðu þig fram ellegar vertu löðrungaður í frumeindir...öhm... einhvernvegin. Ég MUN komast að botni í þessu máli!

Svo, vinsamlegast gefðu þig fram og hlífðu sálartetri mínu fyrir óþarfa vangaveltum. Vinsamlegast.

Kv.Andrea

föstudagur, maí 19, 2006

Glymskrattar.

Þeir sem hafa kannski verið að fylgjast með þessu bloggi af einhverju viti hafa eflaust tekið eftir því að þessa dagana hefur allt gengið á afturfótunum hjá henni litlu mér. Og ef þið hélduð að það gæti ekki versnað úr þessu, guess again. Ég sit hérna heima, í rúminu mínu, með 39 stiga hita og streptókokka. Og ekki bara það, heldur er ég með króníska streptókokka. Þannig að ég fæ að vera á rosalega hressu lyfi sem heitir Kaavepenin, sem að er, að sögn læknis, svo sterkt að ég þarf að vera á magasýrutöflum líka til þess að Kaavepeninið éti ekki upp örvefina í maganum mínum. Vá, can you say hressleiki?

Ég fæ þó allavega ótakmarkað magn af stafasúpu, en þeir sem hafa fengið streptókokka vita hvernig það er að borða mat, og að borða stafasúpuna er svo sársaukafull að það eyðileggur alveg sportið við að borða súpuna. Þannig að ég ligg hérna upp í rúmi með kalda stafasúpu og sofandi kött og dunda mér á Radio blogclub púntur komm.

Fyrir utan það ákváðu báðir foreldrar mínir að yfirgefa mig á ögurstundu fyrir golf (hvað annað) þannig að ég er í umsjá ömmu minnar sem telur að ég sé dauðvona og bannar mér að fara framúr nema það sé bráðnauðsynlegt. Nú er komið að ykkur að hlæja að óförum náungans. Á öðrum nótum er þetta samansafn af misþunglyndislegum lögum í hlustun þessa dagana.

Kv. Andrea

þriðjudagur, maí 16, 2006

Come into my world.

Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að skrifa svo sem eina örfærslu um ömurleika lífsins. Ekki láta það aftra ykkur við að lesa færsluna sem ég skrifaði í fyrranótt líka, og endilega kómentið - eins og þið vitið þá þrífst ég á athygli ykkar.

Málið er að ég hef verið andvaka upp á síðkastið. Frá miðvikudegi í síðustu viku, til að vera nákvæm (fyrir utan þá daga sem ég dó áfengisdauða, sem gerir andvökunæturnar... þrjár). Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það eina góða við andvökunætur er nætursnarlið. Sem væri bjartur punktur í lífi mínu ef ég ætti foreldra sem elskuðu mig og keyptu kannski af og til eitthvað étanlegt. Þau drykkjarföng sem eru í ísskápnum mínum þessa stundina eru, og hér fer ég með sannleikann: kassi af rauðvíni, fjórir bjórar af ýmsum tegundum og útrunnin mjólk. Og sulta. Ég íhugaði að leggja mér hana til munns í kvartsekúntu. Svo vafraði ég í vonleysi um eldhúsið mitt um stund og endaði með Special K stykki og volga flösku af Kristal sem ég fann í þvottahúsinu. Eftir að horfa drykklanda stund á þetta heilsugubb sem voru (af augljósum ástæðum) einu matvælin í húsinu, lagði ég heilsugubbið á borðið og fékk mér hrátt kakóduft í staðin. Svona er ég hörð.

Á aðeins jákvæðari nótum átta ég mig á því að mér líkar betur við sjálfa mig þegar ég er bitur en þegar ég er höfuð yfir hæla.

Kv.Andrea

mánudagur, maí 15, 2006

Graduation day

Það er ekki gott að segja til um afhverju ég er að blogga. Það er ekki mánuður liðinn síðan að ég "bloggaði" seinast, ég hef nákvæmlega ekkert að segja heldur. Ég hef hvorki vitneskju né gáfur til þess að tala um bækur/tónlist/kvikmyndir líðandi stundu, eins og þykir skemmtilegt lesefni þessa dagana, og ég ætti líklegast að fara og sofa vegna þess að ég þarf að fara og gera eitthvað uppbyggilegt snemma á morgun.

Eða nei annars. Ég hef nákvæmlega ekkert að gera. Ég er veggspjaldsbarn fyrir stefnuleysi. Það hræðir mig smávegis. Og það gerir mig reiða. En mestmegnis er ég bara verulega ringluð. Ég geri mér ljóst að fæstir skilji um hvað ég er að tala en það verður að hafa það. (Ég er líka að horfa á L-Word og það er atriði í þættinum sem kom mér mjög svo úr jafnvægi, og nei - það var ekki lessukynlíf). Þarf í alvörunni svona lítið til að koma mér úr jafnvægi? Tvær setningar? Það mætti segja að ég væri tilfinningalega óstöðug. Það er svo auðvelt að fokka í hausnum á mér. Ég ætti að byrja að ganga með álhatt því þetta ástand, frankly, er fáránlegt.

Ég er komin í sumarfrí og vinn að meðaltali 10 vaktir á mánuði. Samkvæmt hjartslætti þjóðarinnar eiga allir yfir 14 ára aldri að vinna eins og djöfullinn sé á eftir þeim með sleipiefni yfir sumartímann. Sem skapar ákveðnar væntingar frá íslenskum foreldrum mínum. Þó svo að mér finnist það ekki nauðsynlegt virðist það vera sameiginlegt álit allra annarra. Er rangt af mér að finnast óþægilegt þegar væntingar eru gerðar til mín sem mig langar ekki að framkvæma? Jafnvel þó þær séu raunhæfar og afar skiljanlegar? Ég held ég eigi bágt. Kannski, kannski ekki. En ég veit ég er mjög mikið tilbúin til þess að gefast upp. Herbergið mitt er jafnvel mettað af uppgjafarlofti. Það eru aðrir hlutir sem ég er meira en tilbúin til þess að röfla yfir en mér finnst líklegt að fáir vilji lesa eitthvað um það, fyrir utan það væri það algjörlega smekklaust að röfla yfir. Ekki að ég sé smekkleg manneskja. Mig langar bara að lemja hausnum á mér við vegg. Kannski ekki viturlegt með allar þessar kúlur sem ég er með á enninu. Helvítis Slots.

Já, ég er 100% neikvæð í nótt. Fyrirgefðu, þú, ef þú last þetta allt.

Kv.Andrea

miðvikudagur, maí 10, 2006

Fæðingarhálfviti.


Ég skrifaði langa langa færslu um lífið og veginn, og smellti smá getraun inní og alltsaman en svo þegar hún var tilbúin og ég ætlaði að pósta henni hugðist ég vera sniðugt og gerði ctrl + A og svo ætlaði ég að gera ctrl + C en ýtti óvart á V í staðin, og fyrir þá sem kunna ekki á lyklaborð þýðir þetta að öll færslan hvarf og það sem ég kóperaði seinast kom í ljós. Þarna varð viska mín mér að falli. Kannski blogga ég aftur í bráð en sem stendur ætla ég að velta sjálfri mér uppúr sjálfsvorkunn sem ég er búin að vera safna í uppblásna barnalaug útá svölum. Þakkir, og sjáumst seinna.

Kv. Andrea