föstudagur, janúar 30, 2009

Snapple Greasemonkey.

Í dag er ég veik heima og ákvað því að blogga smá. Ef þið barmið ykkur þarna á klakanum yfir glötuðu veðri þá er það ekkert mikið skárra hér. Slabb og kuldi. Nokkuð margt hefur drifið á daga mína síðan ég bloggaði síðast í fýlukasti. Síðastliðinn laugardag fór ég á leiksýningu í Jersey með Sindra, Björk, Matthew og Anthony nokkrum kenndum við hljómsveitina The Johnsons. Verkið var eftir belgíska listamanninn Jan Fabre og var titlað “Orgy of Intolerance”. Sýningin byrjaði á sjálfsfróunarkeppni milli leikaranna – þau gældu við sig sjálf af miklu kappi og öskruðu og stöppuðu eins og Satan væri á hælunum á þeim. Ég ætla ekki að fara út í smáatriðin en leikritið varð eiginlega bara subbulegra sem á leið. Allir voru sammála um að þetta væri ansi rembingslegt og illa heppnað hjá greyið Jan. Eftir þetta volæði og 5 tíma fyrirlesturinn í MoMa er skemmst að segja að Sindri treystir Matthew ekki lengur þegar kemur að dægurskemmtunum. Til þess að vera fullkomlega sanngjörn fórum við nú á ansi hressan bar með honum og horfðum á amerískan fótbolta, borðuðum buffalóvængi og drukkum bjór... honum er viðbjargandi. Kvöldinu var bjargað eftir sýninguna, við deildum leigubíl með Anthony niður í miðbæ og fórum í partí í Brooklyn. Enduðum svo á frábærum bar einhverstaðar í Williamsburg sem gaf heila pítsu með hverjum seldum bjór. Tónlistin var hræðileg, og fólkið enn verra, en ég hefði svosem getað gefið mér það, miðað við að við vorum dregin þangað í þeim tilgangi að kynnast manni að nafni Sweet Willie. Allt í allt var þetta frekar fyndið kvöld.

Verkstæðið sem ég er að vinna á er í Queens svo ég tek lestina frá Manhattan á hverjum morgni. Heppilegt fyrir mig að vera einmitt á móti allri umferðinni, flestir fara nefnilega úr úthverfunum og inn í Manhattan að vinna. Ég er allavega byrjuð að læra aðeins betur á umhverfið mitt. Við erum búin með pósitívumótið á verkstæðinu og þurfum nú að gera negatífu og þegar það er búið getum við byrjað á listaverkinu sjálfu. Svolítið flókið ferli, en spennandi og skemmtilegt... og svolítið erfitt. Ef ég get ekki borið pabba minn upp stiga þegar ég kem heim þá verð ég fyrir vonbrigðum, þetta er svo líkamleg vinna. Í þessari viku vorum við að rífa gúmmílagið af bílhúddinu og jafnvel Matthew blés úr nös*. Ég er með hræðilegar harðsperrur í handleggjum og baki, og er nú heima bæði uppgefin og slöpp... og svolítið svöng. Því ætla ég í þessum töluðu orðum að láta þetta nægja i bili og stökkva út á Joe's Pizza og fá mér slæsu (þið munið kannski eftir Joe's Pizza úr kvikmyndinni Spiderman, eða ekki... eigandinn man samt mjög vel eftir því og segir hverjum sem vill vita. Það er skilti og allt).

Hlýja, Andrea Björk

*Til þess að skýra nánar hvað þetta þýðir er Matthew fyrrverandi quarterback og hefur sér lóðalyftingarsvæði á verkstæðinu. Hann er ekki grænmeti.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Cold Feet

Loksins þegar ég var komin með eitthvað plan, einhverjar horfur, götu sem ég gæti litið fyrir hornið á, fer ég að fá bakþanka.

Hvað ef ég kemst ekki inn í neina skóla? Ég er ekki með neinar fokking 35 listnámseiningar. Ég á ekki 300.000 krónur. Ég veit ekkert hvað ég á að gera. Er ég bara sjálfselsk og leiðinleg? Ætti ég að sækja um skóla í London og sætta mig við ævilangar námsáraskuldir sem ég á örugglega aldrei eftir að geta borgað upp? Langar mig yfir höfuð í listnám?

Æ, fokk itt. Ég ætla í háttinn. Á morgun segir sá lati.

Kv. Andrea

miðvikudagur, janúar 21, 2009

New York, New York.

Ég lofaði mínum heittelskuðu (og öðrum) að ég myndi blogga hér eins reglulega og ég gæti. Þetta er fyrsta tækifærið sem ég hef fengið til að intervefast á minni eigin tölvu, svo ég skila inn smá ríporti.

Í dag, eftir vinnu, drógu Björk og Matthew okkur Sindra á ansi þreytandi performance art disscussion forum, sem haldið var í MoMA safninu. Mikið var um dýrðir og við fengum meðal annars að heyra í tævönskum brjálæðing sem læsti sig inn í herbergi í eitt ár, og þýska safnverðinum sem var augljóslega ástfanginn af honum. Húllumhæið tók hátt upp í 5 tíma, en um það leyti gáfust listamennirnir upp og stungu af. Við vorum að klára að borða rétt í þessu.

Ég hef verið á ansi þéttu tímaplani síðan við komum hingað á föstudaginn. Ég er strax byrjuð að vinna á verkstæðinu hans Matthew, og líkar vel (þrátt fyrir að vera að hrynja í sundur af harðsperrum - minn illa um séði líkami, mitt vandamál, býst ég við). Við erum að búa til mót af framhlut bíls, sem mun seinna meir innihalda mikilvæg líffæri bílsins - svolítið eins og krukkurnar sem innihéldu líffæri faróa Egyptalands. Bíllinn á einnig íðilfagra dauðagrímu, sem er húddið á bíl að sömu tegund og árgerð. Bíllinn sjálfur, sem mun upplifa greftrunina, var tættur í sundur á gjörning í Kaliforníu.

Við fengum líka íbúðina okkar á sunnudeginum. Hún er afar rúmgóð, sem er ekki endilega jákvætt því við eigum engin húsgögn. Íbúðin er á besta stað í bænum, við höfum afar klisjukennt útsýni á Empire State bygginguna sem státar sig af enn verra ljósasjóvi en Eiffelturninn. Byggingin er staðsett á Houston stræti, en SoHo hverfið er rétt við hliðiná okkur, enda dregur það nafn sitt af því að vera fyrir sunnan Houston. Allar gasalega fínu tískuverslanirnar eru í Soho. Ekki það að ég eigi eitthvað erindi þangað, vildi bara svona láta ykkur vita.
Allavega, hef þetta ekki lengra í bili, þarf að vakna snemma á morgun.

Ást og hlýja, Andrea Björk.