föstudagur, janúar 30, 2009

Snapple Greasemonkey.

Í dag er ég veik heima og ákvað því að blogga smá. Ef þið barmið ykkur þarna á klakanum yfir glötuðu veðri þá er það ekkert mikið skárra hér. Slabb og kuldi. Nokkuð margt hefur drifið á daga mína síðan ég bloggaði síðast í fýlukasti. Síðastliðinn laugardag fór ég á leiksýningu í Jersey með Sindra, Björk, Matthew og Anthony nokkrum kenndum við hljómsveitina The Johnsons. Verkið var eftir belgíska listamanninn Jan Fabre og var titlað “Orgy of Intolerance”. Sýningin byrjaði á sjálfsfróunarkeppni milli leikaranna – þau gældu við sig sjálf af miklu kappi og öskruðu og stöppuðu eins og Satan væri á hælunum á þeim. Ég ætla ekki að fara út í smáatriðin en leikritið varð eiginlega bara subbulegra sem á leið. Allir voru sammála um að þetta væri ansi rembingslegt og illa heppnað hjá greyið Jan. Eftir þetta volæði og 5 tíma fyrirlesturinn í MoMa er skemmst að segja að Sindri treystir Matthew ekki lengur þegar kemur að dægurskemmtunum. Til þess að vera fullkomlega sanngjörn fórum við nú á ansi hressan bar með honum og horfðum á amerískan fótbolta, borðuðum buffalóvængi og drukkum bjór... honum er viðbjargandi. Kvöldinu var bjargað eftir sýninguna, við deildum leigubíl með Anthony niður í miðbæ og fórum í partí í Brooklyn. Enduðum svo á frábærum bar einhverstaðar í Williamsburg sem gaf heila pítsu með hverjum seldum bjór. Tónlistin var hræðileg, og fólkið enn verra, en ég hefði svosem getað gefið mér það, miðað við að við vorum dregin þangað í þeim tilgangi að kynnast manni að nafni Sweet Willie. Allt í allt var þetta frekar fyndið kvöld.

Verkstæðið sem ég er að vinna á er í Queens svo ég tek lestina frá Manhattan á hverjum morgni. Heppilegt fyrir mig að vera einmitt á móti allri umferðinni, flestir fara nefnilega úr úthverfunum og inn í Manhattan að vinna. Ég er allavega byrjuð að læra aðeins betur á umhverfið mitt. Við erum búin með pósitívumótið á verkstæðinu og þurfum nú að gera negatífu og þegar það er búið getum við byrjað á listaverkinu sjálfu. Svolítið flókið ferli, en spennandi og skemmtilegt... og svolítið erfitt. Ef ég get ekki borið pabba minn upp stiga þegar ég kem heim þá verð ég fyrir vonbrigðum, þetta er svo líkamleg vinna. Í þessari viku vorum við að rífa gúmmílagið af bílhúddinu og jafnvel Matthew blés úr nös*. Ég er með hræðilegar harðsperrur í handleggjum og baki, og er nú heima bæði uppgefin og slöpp... og svolítið svöng. Því ætla ég í þessum töluðu orðum að láta þetta nægja i bili og stökkva út á Joe's Pizza og fá mér slæsu (þið munið kannski eftir Joe's Pizza úr kvikmyndinni Spiderman, eða ekki... eigandinn man samt mjög vel eftir því og segir hverjum sem vill vita. Það er skilti og allt).

Hlýja, Andrea Björk

*Til þess að skýra nánar hvað þetta þýðir er Matthew fyrrverandi quarterback og hefur sér lóðalyftingarsvæði á verkstæðinu. Hann er ekki grænmeti.

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

blogga meira meira meira meira meira... ég vil vita allt.
-dflz

sunnudagur, febrúar 01, 2009 10:57:00 e.h.  
Blogger Andrea said...

Já, en mig langar í feedback.

mánudagur, febrúar 02, 2009 12:12:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

feedback
þarna hefuru það.
ég vona að þú sért ekki að púlla all work and nó play í nýju jórvík því þú veist að það gerir andreu a dull girl
-erla

mánudagur, febrúar 02, 2009 1:21:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

mikið hljómar þetta hressandi. allavega er reykjavík drullupittur um þessar mundir. ég myndi ekkert vera í því að fá heimþrá.
við erum farin að drekka gambra að staðaldri. allavega ég. Ó NEI, ÞAÐ ER DÁVALDUR, HLAUPIÐ FYRIR GEÐHEILSU YKKAR!!!!
sfs

fimmtudagur, febrúar 19, 2009 8:55:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home