föstudagur, janúar 25, 2008

Frat.

Hér með get ég, Andrea Björk Andrésdóttir, fullyrt af nokkurri vissu að tónverkið Fratres eftir Arvo nokkurn Pärt hafi breytt, þó aðeins lítillega, lífi mínu. Ef nokkur hefur áhuga á að vita af því, sem ég efast reyndar um.

En hvað um það, þegar ég reyni að spila það fyrir aðra er ég oftar en ekki púuð niður. Ég velti því fyrir mér hvor hefur lélegan smekk, ég eða afgangurinn af heiminum.

Þegar ég klára bók sit ég oft í einhverri geðshræringu nokkra stund, algjörlega á þekju. Eina hugsunin sem kemur upp í huga mér akkúrratnúna er hve fegin ég er að vera hérna inni með þessa átakanlega góðu tónlist, en ekki úti þakin snjó eins og hún Bára og dádýrið hennar, sem líta löngunaraugum inn um gluggann minn og harma þau ömurlegu örlög að vera einungis úr plasti.

Kv. Andrea

miðvikudagur, janúar 23, 2008

Vildégværiheimsk.

Það er svo fyndið með mig að yfirleitt er ég svo kúl og yfirveguð, oft svo kaldhæðin að ég særi vini mína óafvitandi, en á 3-4 mánaða fresti brest ég í grát af engri sjáanlegri ástæðu. Á slíkum stundum finnst mér sem hjarta mitt ætli að springa af sorg. Mér líður eins og ég sé að syrgja sjálfa mig.

Hvað á það annars að þýða að innræta mig þannig í bernsku að mér séu gefnar í vöggugjöf þessar gáfur og hæfileikar (svo ekki sé minnst á þetta fallega andlit, jeremías minn hergú), að það geti ekki annað verið en að framtíð mín verði gullbróderuð og stjörnum prýdd. Svo get ég ekki fyrir mitt litla líf séð þetta sjálf og hef enga trú á þessu hjali. Samt finnst mér eins og ég sé að svíkja einhvern þegar ég finn í mér að ég á eftir að enda í Þingholtunum að þrífa hús eins og hún Kolfinna. Vakna einn daginn og uppgötva að ég er gömul og úldin og kann ekki neitt. Og ég sem hef svona mikla andstyggð á moppunni. Það er svo sárt að langa en efast.

Óskaplega er ég fegin að hér kemur ekki nokkur sála lengur, til þess eins að verða vitni af sjálfhverfu minni og aumingjaskap. Jafnvel Oscar Wilde myndi snúa sér í gröfinni yfir egómiðstöðinni sem ég er. Það er sárt að hata og elska sjálfan sig á sama tíma.

Kannski ætti ég bara að kenna samfélaginu um og láta þar við liggja, síðan ég þarf að mæta í jógatíma óguðlega snemma í morgunsárið. Og vera kúl og yfirveguð í þokkabót.

Kv. Andrea