laugardagur, mars 14, 2009

Stundum er ég mjög ósanngjörn.

er ég aðallega að hugsa um hluti sem ég hef sagt eða gert sem hafa sært aðrar manneskjur. Ég vona að þið áttið ykkur öll á því að ég get verið ansi mikið fífl og leiðindadurgur. Stundum segi ég hluti einfaldlega vegna þess að ég veit ekki betur. En þetta vitið þið eflaust betur en ég. Ef það skildi bæta líðan ykkar eitthvað það þá átta ég mig allavega á því. Hvað sem því líður.

Eftir David Byrne tónleikana sem ég minntist lítillega á í síðustu færslu fór ég á fyllerí. Það vildi svo vel/illa til að sama kvöld var verið að halda þorrablót Íslendinga í New York og síðan við Sindri höfðum ekkert betra að gera hringdum við í Sólu, barnfóstruna hennar Ísadóru, og fengum hnitin í SMSi. Nú, þegar við komum var hákarlinn búinn og mestallt áfengið, en við fundum gengi af ungum Íslendingum á einhverjum svakabömmer sitjandi á tröppunum á einhverri kirkju. Það er nú alveg eftir íslensku þjóðinni að halda heiðið áfengissvall í kirkju. Allavega, ég stökk inn til þess að fara á klósettið og náði byrjunartónunum í Gleðibankanum, en þegar ég gekk í gegnum salinn áttaði ég mig loks á því hvað ég hafði komið mér út í - ónáttúrulegasta samansafn af fólki sem nokkurtíman slysaðist til þess að deila ríkisborgararétt.

Partíið var augljóslega að enda komið og áfengið líka, fyrir utan eina einmana brennivínsflösku sem ég átti endurfundi með, en við höfðum ekki talast við síðan í sumarbústaðarferðinni hérna forðum en þá enduðu samskipti okkar með ferð að vaskinum og samtali við hálfmeltan hamborgara sem hefði betur legið ósnert. Í þetta sinn skildust leiðir þó ekki hjá vaskinum, heldur í Kóreuhverfinu, þar sem við enduðum með nokkrum gangandi jakkafötum og herðatrjám (þó aðeins eftir að þeim hafði verið neitaður aðgangur að einhverjum hippogkúl skemmtistað í einhverjum kjallara... ég hélt ég myndi æla af hlátri þegar ég heyrði þessa setningu "Dísöss, hvernig heim búum við í þegar 4 módel og einn gæi komast ekki inn á skemmtistað. Ég meina, wott?!". Já, í alvöru). Stefnunni var heitið á karíókíbar og ekkert minna kom til greina en að leigja herbergi. Einn af ungu sjálfstæðismönnunum kikkstartaði kvöldinu með afar ólöglegri útgáfu af Du Hast. Fyrirsæturnar voru álíka illa á sig komnar, tóku Total Eclipse of the Heart tvisvar sinnum í röð og fóru að gráta. Þegar drykkirnir fóru að streyma inn varð kvöldið aðeins ásættanlegra, og endaði á því að vera ansi fyndið og skemmtilegt. Jafnvel ég, jungfrú horfi-úr-hásætinu-mínu-á-hina-með-fyrirlitningarsvip, tók nokkra tímalausa slagara á borð við Heartbreaker með Pat Benatar og Don't Bring Me Down með ELO, og skemmti mér og öðrum stórfenglega vel með ýmsum skrípalátum. Þrátt fyrir að hafa staupað brennivín og smánað mig í karókí fannst mér kvöldið hafa heppnast ágætlega, ef ekki bara fyrir þær sakir að ég gat talað íslensku og þurfti ekki að sanna mig fyrir neinum.

Jæja,
ætli ég sé ekki nógu þreytt til að skríða upp í með Önnu Kareninu og sjá til hvort ég geti sofnað. Þetta hefur verið ánægjulegt.

Kv. Andrea