laugardagur, október 22, 2005

Brennið þið vitar...

Já, af þessu má dæma að einhver hatar vita. Kannski beikon líka. Ástæðan fyrir dræmri bloggtíðni upp á síðkastið er sú að ég, Andrea Björk Andrésdóttir er orðin þræll lífsgæðakapphlaupsins. Já, ég hef selt sálu mína djöflinum og brotið allar mínar siðareglur. Fólk mun signa sig ótt og títt, henda sér í jörðina í bæn fyrir sál minni og gráta góðan hermann sem fallið hefur í valinn. ÉG er nefnilega komin með vinnu. Hjá Mekong - thailensku matstofunni. Þið ættuð kannski að kannast við staðinn, hann er í Bæjarlind og selur hrísgrjón og núðlur. Og mjög góða kjötrétti, svo sem Matsaman og Paneng. Virkilega sneddí, jééé... mæli með þessu. Önnur ástæðan fyrir bloggleysi er vitanlega þessi gamla og góða - leti. En afhverju er Andrea komin með vinnu? - hugsar fólk sjálfsagt. Manneskja sem hefur nánast aldrei lyft litla fingri á allri sinni ævi? Hvað gengur á? Jú, móðir hennar neitar að borga undir fáránlega há útgjöld hennar svo að hún neyðist til þess að leita á annan vettvang í leit að gjaldeyri. Og hvernig gengur? Jú, vel - segir hún aðspurð um hagi sína hjá Mekong. Undir handleiðslu Benediktu get ég ekki gert mörg glapparskot, er það? Nei, svo sannarlega ekki.

Dagurinn: Ég vaknaði klukkan hálf 2. Það lýsir fullkomlega miklu svefnleysi sem hefur hrjáð mig undanfarið. En núna er ég búin að skila inn kjörbókarritgerðinni minni og ég get sofið vært í bili. Núna er ég að baka köku fyrir móður mína á meðan Híldris eru í sundi. Við ætluðum að fara að mála háaloftið hjá henni en sökum einskærs plebbaskaps ætlum við víst að kíkja í eitthvað hóf hjá Ungum Sjálfstæðismönnum í staðin. Ég hafði ekki ætlað mér að fara út á almannafæri í dag en núna þarf ég víst að fara og greiða á mér hárið. Skrambans.

Pæling Dagsins: Það vefst eitt fyrir mér. Stundum ákveður eitthvert dindilmennið að ræna sjoppu í þeim tilgangi að eignast smá harðan pening með lítilli áreynslu (og hræða svo afgreiðsludömu til dauða með borðhníf). Þá ratar reynslusaga þjónustupíunnar oft í blöðin. Fyrirsögn er eftirfarandi: Vopnað rán framið í Hvassaleitinu - Afgreiðslustúlku ógnað með borðkuta. Afhverju þarf -vopnað- rán að koma fram? Er ekki nokkuð augljóst að rán eru vopnuð? Eru þá til óvopnuð rán? Hvernig fara þau fram... maður veltir fyrir sér. Jæja. Nóg komið í dag.

Kv.Andrea

sunnudagur, október 09, 2005

Peningar frá himnum

Æi... kannski ég skrifi smávegis niður. Ég nenni ekki að læra stærðfræðina mína og ég hef enga löngun til þess að lesa meira af kjörbókinni. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera... ég er ekki í skapi fyrir neitt. Það lítur út fyrir að vera krísa. Annars er farið að styttast í vetrarfrí. Næntís ball er einnig yfirvofandi. Ég er nokkuð pottþétt á því að fara en ég veit samt ekki hvort ég tími því... ég á svo ósköp lítinn pening. En mig langar samt að dressa mig upp næntís, það er svo gaman. Ég vildi að ég ætti Spice Girls bolinn minn ennþá... Ja, ég get alltaf farið í Törtles bolinn. Hvað er það annars sem maður má skrifa hérna? Er ég gelgja afþví ég blogga? Má ég ekki skrifa um hvað verður á vegi mínum í amstri hvunndagsins án þess að vera stimpluð gelgja með athyglisþörf? Ekki það að það skipti mig miklu máli því ég er hvort eð er gelgja með athyglisþörf.

Dagurinn: Ég held ég sé að verða veik. Ég vaknaði í dag með verk í hálsinum og hann er búinn að vera í allan dag. Mér finnst eins og hann sé bólginn, það vitar ekki á gott. Ég fór í sumarbústaðinn í gær með nokkrum vinum, og það var alveg ágætt. Mér fannst reyndar skemmtilegra í fyrra skiptið sem við fórum en þetta var líka ágætt. Það er gott að komast af og til út úr bænum... ég held að það hjálpi geðheilsu manns til muna. Mér leið líka skringilega vel þegar við keyrðum heim í dag, horfandi á líðandi landslagið með sæta tóna UB40 og Manu Chao undir... Svo kom ég heim og svaf í nokkra tíma, í stað þess að læra. Hver þarf lærdóm? Pffh! Ekki ég!


Miller og Monroe

Pæling Dagsins: Afhverju í ósköpunum skrifa svona rosalega margir á Huga líta með ypsiloni? Afhverju?! Það fer alveg óendanlega í taugarnar á mér. Þetta er ekkert erfitt! Lýta - líta ... er ég eina manneskjan sem sé þetta? Hvaða manneskja með snefil af sjónrænu minni ætti að sjá að klárlega er líta ekki skrifað með ypsiloni! Eru kannski bara svona margir dislexískir sem stunda www.huga.is? Er ég að tapa glórunni? Hmmm? Ha? Kannski, já... ég held það.

Unaður Dagsins: Tvær brauðsneiðar. Kjúklingaskinka. Venjuleg skinka. Mikill ostur. Sinnepsósa. Samlokugrill. Glas af Floridana appelsínudjús. Fullkomin máltíð, ekki verra að hafa Frank Sinatra á fóninum um leið. Kannski dansa örlítið um stofuna? Já, kannski? Hmmm? Það held ég nú. Þessu mæli ég eindregið með.

Kv.Andrea