laugardagur, febrúar 28, 2009

Æ, æ og ó.

Ég er með heimþrá. Ég get ekkert hamið hana. Það er ekki það að mér leiðist hérna í borginni sem aldrei sefur, né er föðurlandið gullvarma slegið í huga mér þessar stundirnar... svo best ég skil eru allir blankir og byrjaðir að borða tófú, mér finnst ég ekki vera að missa af miklu. Það er annað.

Mér finnst eins og borgin sé að kæfa mig. Hún liggur á mér eins og mara. Það eru háar byggingar allstaðar, maður sér ekki fóta sinna skil fyrir endalausum straum fólks og faratækja. Ég sakna hafsins. Ég sakna víðáttunnar og hráleikans. Borgin er vissulega hrá en ekki á sama hátt og Ísland er hrátt. Ég er skömmustulega mikill Íslendingur á köflum... hálf vandræðalegt. Ég sakna vina minna heima og fjölskyldunnar minnar sem er að þreyja þorra as we speak.

Kannski er ég bara stressuð útaf þessu portfólíódæmi... tíminn er að renna út og ég er ennþá ósátt. Jæja, það er laugardagur og ég er að fara á tónleika með David Byrne, vonandi get ég fengið mér einhvern bjór líka og kannski hætt að hugsa svona neikvætt.

Hlýja, Andrea

laugardagur, febrúar 21, 2009

Bleikir drykkir.

Jæja.

Margt hefur drifið á daga mína síðan ég bloggaði síðast, en fátt er nógu spennandi til að ég eyði tíma í að draga það upp úr hugarfylgsnum mínum og útlista hér. Líferni mitt hefur tekið óvæntum stakkskiptum, ég hef innbirgt óvenju lítið áfengi upp á síðkastið og aðeins fundið fyrir áhrifum þess tvisvar eða svo.

Fyrra skiptið var á miðvikudegi. Við fórum á tónleika í Brooklyn með Björk, Damien hljóðmanni, Matthew Herbert og skötuhjúunum Dave og Amber úr hljómsveitinni The Dirty Projectors. Hljómsveitin sem var að spila hét Beirut og ég get ekki sagt að þeir hafi hrifið mig upp úr skónum - þó voru brassútsetningarnar þeirra ansi hressar. Sökum þess að okkur voru úthlutaðir bjórmiðar fór kvöldið örlítið úr böndunum og endaði með skrautlegu pöbbarölti og mig að reyna að sannfæra alla um að koma á karókíbar.
Seinna skiptið var í gær, matarboð sem endaði, again, í pöbbarölti. Ég er ennþá svolítið þunn, og að reyna að rifja upp hvað ég gerði í gær. Ég man óljóst eftir því að hafa átt innilegar samræður við Klaus, þýska safnvörðinn á MoMA sem ég minntist á í öðru bloggi, og hef komið mér í þá vandræðalegu stöðu að vera boðið á einhverja uppákomu á sunnudaginn sem ég veit ekkert hvað snýst um, og ég finn það ekki í mér að spyrja manninn hvað í ósköpunum við vorum að ræða svona innilega.

Ennþá þunn... var að koma af tónleikum sem Anthony bauð okkur á. Tónleikarnir voru fallegir og áhugaverðir, sérstaklega ábreiðan hans á Crazy in Love með Beyoncé. Allavega, inn á milli þessa atvika skruppum við til Kúbu í viku. Það var góð tilbreyting frá kuldanum í New York - strönd og gamlir bílar. Þegar ég sagðist bara hafa orðið full tvisvar síðan ég kom til New York var ég að ljúga - ég uppgötvaði kokteilinn hans Ernest Hemingway og síðan ég var á Kúbu hafði ég í raun engu að tapa, svo ég demdi mér eitt kvöld í vindlareykingar og daquirie-drykkju. Endaði á því að fara í sleik við styttu af Hemingway. Vikan á Kúbu var virkilega góð, þó að heimferðin hafi verið svolítið skrykkjótt, við lentum í öllum mögulegum leiðindaseggjum bæði Kúbu og Bandaríkjamegin. Ef við hefðum ekki fengið almennilegan mat í fluginu heim (bissnessklass, beibí) hefði ég örugglega sest á gólfið í flugstöðinni og byrjað að grenja af þreytu þegar Björk og Dóa lentu í hálftíma yfirheyrslu vegna einhvers fáránlegs smáatriðis varðandi vegabréf. Á þeim tímapunkti saknaði ég svolítið Íslands - staðs þar sem ég er ekki álitin óvinur ríkisins vegna þess að ég fór til Kúbu. Af öllum löndum í heiminum til að fara til beint eftir ferð til Kúbu eru Bandaríkin tvímælalaust versti áfangastaðurinn.

Úff. Ég er ekki góð í svona bloggfærslum þar sem maður telur upp hluti sem maður er búinn að gera. Í fyrsta lagi er leiðinlegt að tala um það og í öðru lagi lifi ég bara ótrúlega óspennandi lífi og hef því fátt að tala um. Ég held ég slái því botninn í þessa bloggfærslu sem stendur, skrifa kannski eitthvað meira þegar ég hef eitthvað að segja sem er þess virði að lesa.

Hlýja, Andrea.

P.s. Ég er tótallí búin að læra að nota bor! In yer face, steríótýpukvenímynd.