föstudagur, apríl 14, 2006

Raksápupáskar

Ég hef ekki haft mikið að segja undanfarið, en það hafa verið páskar og ég hef verið upptekin. En ég fann mig knúna til þess að lýsa yfir ánægju minni á litlu atviki sem henti mig um daginn.

Ég var í vesturbæ Reykjavíkur, snemma um morgun og ætlaði að taka strætó heim. Ég rölti út í skýlið og settist niður. Leið og beið og einu strætisvagnarnir sem keyrðu framhjá virtust bara ekki vera á leið. Ég var búin að bíða í 3 korter þegar það stoppaði bíll fyrir framan skýlið, og rúðan var skrúfuð niður. Ég tipplaði að bílnum og inni sat maður af erlendum uppruna. Hann sagði "strætó ekki byrja ganga fyrr klukkan eitt!". Ég vissi ekki hvað á mig stóð veðrið og sagði því "ertu viss?!" og hann sagði "treysta mér, ég strætóbílstjóri, strætó ekki byrja ganga fyrr klukkan eitt... helgidagur". Ég kinkaði kolli og melti upplýsingarnar. Klukkan var rétt yfir 12 og það var virkilega kalt úti. Þá sagði strætóbílstjórinn að hann myndi bara skulta mér, hann væri á leiðinni í World Class. Orðlaus yfir gæskunni sem þessi maður hafði settist ég upp í bílinn og hann spurði mig hvert ég væri að fara. Ég sagði honum að ég þyrfti nú bara að komast upp á Hlemm og þá væri ég í góðum málum. Hann byrjaði svo að hjala um börnin sín og að konan hans væri flutt heim frá Bandaríkjunum. Svo fórum við að tala um bílaeignir og bensínverð og allt í einu sagði hann "Það sem ég finnst gott við Ísland er að hér allir svo góðir. Í Bandaríkin myndi ég aldei geta hjálpað þig, þú aldrei treysta mér, halda að ég vera brjálæðingur!" og padaði eitthvað með höndunum út í loftið. Fyrr en varir var ég komin uppá Hlemm, og þakkaði manninum innilega fyrir hjálparhöndina.

Ég komst ekki hjá því að hugsa um það sem hann sagði og hvað það væri frábært að fólk eins og hann væri ennþá til á Íslandi. Fólk er farið að vera svo ótrúlega tortryggið og tjah ...bandarískt eitthvað. Mér finnst að alltof fáir treysti á manngæsku náungans lengur. What goes around comes around? Allavega, þegar ég kom heim hitti ég heimsku vini bróður míns og sagði þeim frá þessum indæla manni. Það sem þeir höfðu að segja um málið var, and I quote: "Settistu upp í bíl hjá útlendingi?! Ertu brjáluð?! Hann hefði getað verið brjálaður nauðgari eða morðingi!". Indælt dæmi um heilaþvott og rasisma, ef þú spyrð mig.

Ég geri mér grein fyrir því að hver málsgrein þessarar færslu byrjar á orðinu ég, og vitiði hvað? Mér er alveg sama, þetta er jú, mitt blogg. Ef einhver hefur eitthvað út þá þetta að segja má sá hinn sami vinsamlegast snæða saur. Gleðilega páska.

Kv.Andrea