fimmtudagur, júní 30, 2005

Napalm in the mornings

Af því að móðir mín dró mig með sér að sækja pabba út á land í kvöld ákvað ég að nota mér þau fríðindi að tölvan mín er ferðafær og hef hér með ákveðið að blogga á ferð. Það er eitthvað sem ekki allir bloggara geta státað sig af. Við stefnum að Kili þar sem faðir minn og stjórnmálamaðurinn Steingrímur Joð eru einhverstaðar á vappi, en þeir hafa verið að vappa síðastliðna þrjá daga í þeim tilgangi að fagna fimmtugasta aldursári rauðhærða blómabarnsins, sem er í ágúst. Steingrímur ætlar sér að ganga frá Reykjanestá að Langanesfonti og halda svo í Þirstilfirðinum heljarinnar teiti. En sem stendur erum við bara að sækja pabba og ferma vistir til Steingríms. Við þeysumst áfram þjóðveginn og rigningin hamrar á gluggunum í takt við Svartan Afgan. Hvað ætlaði ég mér nú að blogga um, hugsa ég... en hef steingleymt því, eins og flestu öðru sem ég geri. Núna um daginn fékk ég svo sendan gíróseðil frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, fyrir bæði skóla og félagsgjöld og blessanlega þarf ég ekki að eyða mínum peningum í það. Spennan fyrir nýja skólanum magnast og ef ég finn ekki fyrir smá keim af stressi þá veit ég ekki hvað. Hvernig ætli það sé að sjá alveg um skólamálin sín sjálf? Ég hef ekki kynnst því en ef satt best skal segja þá veit ég ekki alveg í hvorn fótinn skal stíga. Kannski maður standi þá bara á höndum? Við keyrum meðfram Ingólfsfjalli sem stendur og miðar vel áfram. Ekki finnst mér þó blogginu miða vel áfram, ég er alveg þurr á umræðuefni. Ekkert gerist hjá mér nema vinna, það er miðpunktur alheimsins sem stendur. En allt hefur sinn endi og vinnan líka. Planið er að vinna á leikjanámskeiðinu þessa viku og næstu viku, og fara svo tvo daga í skógrækt eða arfatínslu til þess að ná öllum 217 tímunum mínum. Næsta vika á víst að vera virkilega róleg og fámenn, og ég get ekki sagt annað en að ég hlakki bara til þeirrar tilbreytingar. Svo neyðist ég víst til þess að leita mér að nýrri vinnu. Ef það gengur eftir sé ég ekki fram á að fá neitt sumarfrí. Svo fer sem fer.

Dagurinn: Það gekk brösulega að vakna en eftir bolla af kóki kom ég mér þó á stað. Vinnan var sossum ágæt, eftir hádegi fórum við í Maríuhella og grilluðum brauð a la skátar. Þegar heim var komið henti ég mér bara á rúmið og sofnaði með Pésa mér við hlið. Bensi vakti mig um sjöleitið svo ég gæti eldað hamborgara með honum, en þegar ég kom niðrí eldhús stakk hann svo af í sturtu og skildi mig eftir með hamborgarana. Hann fékk kaldann hamborgara í kvöldmatinn *evil smirk* ... Svo kom mamma heim og tældi mig með á Kjöl með loforðum um súkkulaði. Núna erum við á leiðinni heim, eftir dágóða pásu í Reykholti. Frændfólk mitt býr þar, og mamma Lindu frænku minnar er örugglega besta húsmóðir í heimi. Það eru ALLTAF til kökur þar, sama hvenær maður kemur. Annars er Linda frænka mín að fara á kóramót í Japan... Oh! Mig langar til Japan. Mig langar samt eiginlega bara að fara til útlanda, einhverra sólarlanda. Ég er komin með langt upp í háls af þessu leiðinlega skýjaveðri sem er búið að hrjá landann í vikur. Hitabylgja! Ég vil hiiiita! Einhvernvegin efa ég þó að guð bænheyri mig... Vesalings ég.

Pæling dagsins: Mömmu finnst pælingar skemmtilegar. Hún spurði mig hverju ég ætlaði að pæla í áðan og eins og venjulega hafði ég ekkert svar. Hún spurði mig svo hvort ég færi aldrei í stóru pælingarnar, eins og til dæmis hamingju. Ég held einfaldlega að ég sé of ung til þess að geta vitað almennilega hvað hafa lífið snýst um, hvað hamingja og ást séu og afhverju við erum stödd á plánetunni Jörð. Þarf maður að hafa lifað lífinu til þess að vita eitthvað um það? Þarf maður að kunna allt og geta allt ef maður vill eitthvað til málanna að leggja? Ætti ég að slökkva á sjálfri mér þangað til ég hef upplifað eitthvað “massíft” sem ég get haft skoðun á? Mér finnst eins og allt líf mitt hafi verið dans á rósum og ég hafi í raun ekki rétt á að kvarta og kveina yfir tilgangsleysi og armæðu yfir höfuð. Mér finnst líka eins og aldrei hafi verið meiri aðsókn í barnasálfræðinga og allt í einu eru allir unglingar nær og fjær þunglyndir með meiru. Mér hefur nú bara verið tjáð að þetta heiti góðu nafni “unglingaveikin”. En er það eitthvað skrítið að unglingum í dag finni fyrir vott af þunglyndi af og til? Flestir unglingar í dag hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. Kastað á milli skóla og vinnu endalaust, vita ekkert til hvers þau eru að læra allan þennan andskota. Hafa engan tilgang. Ég veit ekki um ykkur en mér finnst ég ívið tilgangslaus þegar foreldrar mínir reyna endalaust að koma mér einhverstaðar fyrir til þess að halda mér upptekni og úr klandri. Núna af því að vinnan mín er að líða undir lok kom jafnvel sú umræða upp að senda mig í sveit. Í sveit! Fyrr mun ég dauð liggja. Ætli maður hefði nú samt ekki gott af því að fara smá í sveit og kynnast einhverju öðru en bæjarlífinu sem er um það bil það eina sem ég þekki. Þó ég sé ekki mikil sveitamanneskja get ég þó státað mig af því að vera kannski aðeins meira í tengslum við Ísland en flestir vinir mínir... ég hef þó allveganna farið í heyskap, göngur og réttir. Skúli greyið hefur ekki einu sinni farið á hestbak! Það er nú alveg ómögulegt. Verst fannst mér þó þegar Rut vissi ekki hvað það væri að draga í dilka. Hvað varð um *íslensku* þjóðina? Eina sem maður gerir í dag er að fara á MacDonalds og borðar erlent kjöt. Úff, nóg komið af lélegum pælingum. Held ég slútti þessu bara... En hey, er ég ein um að finnast Spike í “Buffy vampírubana” vera óhugnalega líkur Billy Idol? Er ég bara klikkuð eða?

Kv.Andrea

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

þú mátt kalla mig þröngsýnan, en persónulega finnst mér fátt jafn mannskemmandi og sveitin. Þetta er allt voðalega kósý og skemmtilegt fyrsta daginn en allt eftir það er lifandi helvíti.

fimmtudagur, júní 30, 2005 12:44:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

aflitað hár
breskur

bíddu?... ertu að segja mér að þeir séu tveir???

fimmtudagur, júní 30, 2005 1:09:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Ekki líkja James Masters við Billy Idol nei nei nei nei ! ert þú ekki bara lík þeim ehh ég meina þú ert ljóshærð og ummmm bresk ? eða ekki allavega engin samanburður ! nei

fimmtudagur, júní 30, 2005 1:53:00 f.h.  
Blogger Andrea said...

Nei, frekar langt síðan... þetta poppaði bara óvænt upp í hausinn á mér þegar ég var að blogga :P

fimmtudagur, júní 30, 2005 4:27:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

...smells like victory.

fimmtudagur, júní 30, 2005 9:47:00 e.h.  
Blogger Andrea said...

Hvað er málið með 'gjöðveikt'?

föstudagur, júlí 01, 2005 7:47:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

þunglyndi í dag er algengt því að sálfræðingar eru í slagtogi við geðlækna . Sálfræðingar eru peningabraskarar sem segja þig þugnlyndan til að taka þig í rándýra talmeðferð og senda þig síðan til kollega sinni í geðlæknastéttinni sem taka morðfjár fyrir að staðfesta þunglyndið og setja þig á lyf sem þú trúir að lagi þig eða sem þú getur þó allavega klínt öllum þínum mistökum á ... úps ég gerði þetta því ég er þunglynd og gleymdi að taka inn lyfin Ó *grenj* vorkenn fyrirgef ? *hvolpaaugu*

sunnudagur, júlí 03, 2005 8:29:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home