mánudagur, júní 04, 2007

Kapítalisminn þrengir að mér.

Ég veit að þetta er klassískt umræðuefni, sérstaklega þessa dagana og sérstaklega komandi frá mér, en ef þú, kæri lesandi, hefur lesið eitthvað af þessu bloggi ættirðu að sjá eilítið mynstur varðandi notkun mína á Strætisvögnum Kópavogs og Reykjavíkur, nefnilega mikið. Ég finn mig knúna til að kvarta og kveina og væla í engum nema þér, kæri lesandi, vegna þess að mér þykir ekki vænt um þig. Ef mér þykir vænt um þig þá skaltu hætta að lesa hér.

Fyrir þá sem eru blindir og heyrnalausir og fara ekki út úr húsi nema til þess eins að góna á himininn og velta fyrir sér hvaða svífandi málmhlutir þetta séu þá skal ég útskýra aðeins nánar. Strætisvagnar Reykjavíkur, eða Strætó bs. eins og þeir vilja kalla sig eru nefnilega í mikilli krossferð gegn því að fólk noti strætisvagnana sína. Þó að mér þyki verr að alhæfa finnst mér nokkuð ljóst að þeir menn og/eða konur sem stjórna þessu svokallaða fyrirtæki hafi fátt annað í hyggju en að bola öllum notendum strætisvagna úr vegi svo þeir geti lýst því yfir að almenningssamgöngur séu ekki arðræn starfsemi (og allir Íslendingar séu hvort eð er svo ríkir að þeir geti keypt sér bíl, og hverjum er ekki sama um Pólverjana?) og þannig losnað við þennan hausverk sem öllum ráðamönnum þjóðarinnar er blessunarlega sama um vegna þess að þeir þurfa jú ekki að hafa áhyggjur af fjárhag sínum og geta keyrt um á fallega bílnum sínum eins og þeim lystir. Hvernig hef ég komist að þessari einkennilegu niðurstöðu sem lyktar af samsæriskenningatali og léttri geðveiki, spyrjið þið?

Flestir sem nokkurtíman hafa tekið strætó hafa líklegast tekið eftir ævintýralega háa gjaldinu sem hinn almenni fátæki námsmaður og öryrki þarf að greiða fyrir að fá að sitja í svona líka fínu gubblyktandi ferlíki í nokkrar mínútur. Þó það sé sossem aldrei hægt að treysta því að þessi verðskrá sé eitthvað í átt við að vera stabíl hefur gjaldið í vetur verið 280 kr. fyrir einstaklinga yfir 18 ára, en lítt þekktur afsláttur sem fæstir vita af fyrir unglinga, kostakjör - 100 kr. En nú hefur verið tekið í gildi nýtt og spennandi leiðarkerfi (hversvegna að hafa sömu tímana þegar við getum breytt þeim á 3 mánaða fresti, annað væri nú bara leiðinlegt er þaggi?) þar sem að allir strætisvagnar ganga ALLTAF, já - alltaf á 30 mínútna fresti. Fínt, ekki satt? Vegna þess að fólk þarf ekkert að komast á milli staða á sumrin. Auk þess hættir afsláttur unglinga að virka 1. júní þess árs sem þeir verða 18 ára, vegna þess að eins og við öll vitum kostar bensín þrefalt meira á sumrin. Ég er hálfpartin að bíða eftir því að verðið hækki upp í 350 krónur fyrir eina ferð. En einnig, og hér kemur rúsínan í pylsuendanum, skilst mér að sjálfur framkvæmdastjóri Strætó bs. sé meðlimur í félaginu Vinir Einkabílsins* sem eru í sjálfu sé algert "oksímorón" og dregur töluvert úr trúverðugheitum hans sem framkvæmdastjóri almennings-samgangna.

Annars er það nú frekar mín persónulega reynsla af starfsfólki og þjónustu Strætisvagna bs. sem fær mig til þess að draga þessa ályktun. Í yfir 50% tilvika sem ég nota strætisvagna verð ég vör við annaðhvort dónalega hegðun starfsmanna, glannalegan og kolólöglegan akstur eða lélega þjónustu, það er að strætisvagn komi of seint eða komi hreinlega ekki. Í dag var ég stödd á Lækjartorgi þegar ég sá strætisvagninn sem ég þurfti að taka á nálægri stoppistöð. Ég hljóp til og bað bílstjórann sem var að undirbúa sig undir brottför að hleypa mér inn. Ég hélt á kókdós og samkvæmt reglum Strætó bs. eru drykkjarföng bönnuð innan veggja strætisvagnanna svo ég reyndi að losa mig við dósina. Á meðan að því stóð opnaði bílstjórinn hurðina, horfði á mig með fyrirlitningarsvip og lokaði henni svo aftur. Þetta var líklegast til þess að sýna mér hversu litla virðingu hann bæri fyrir ungu fólki með kókdós í hönd, líkt og mér. Ég stóð fyrir utan dyrnar hans þar sem að hann var fastur á rauðu ljósi og gat því ekki skvett yfir mig rigningarvatni á leið sinni vestur í bæ, og hann sá mig ósköp vel en vildi hreint ekki opna dyrnar. Ég var vitanlega sármóðguð og gaf honum fingurinn í von um að það myndi kenna honum mannasiði, þó mig gruni að það hafi einungis rennt stoðum undir klisjukennda staðalímynd hans af ungu fólki.

Auk þess var ég stödd á Hlemmi fyrir ekki nema 2 klukkutímum, rennblaut í fæturna vegna rigningar og ósmekklegheita íslensks veðurs, og samsamaði mig líklegast við flesta inná Hlemmi. Þar sem ég sat og beið eftir að strætisvagninn minn ætti að leggja af stað sé ég ungt breskt par koma inn, rennandi blaut í tilheyrandi túristagír. Þau reyna að skilja eitthvað í leiðatöflunni á meðan þau fara úr blautum vettlingum, úlpum og skóm, og hita sér svo við ofn eftir að hafa árangurslaust spurt starfskrafta Hlemms um leiðbeiningar. Þá gengur að þeim mjög digur maður með gelað hár og fallegt "træbal" tattú streymandi niður tvíhöfðann, sem einnig bar nafnspjald sem á stóð "öryggisvörður", þó ég efi að hann hafi verið að verja nokkurn skapaðan hlut. Hann byrjar að steita hnefann að þeim svo spikið hristist, og þegar ég tók niður heyrnatólin mín komst ég að því að hann var að banna þeim að ylja sér á ofninum. Nú, þar sem að þetta voru útlendingar gátu þau ekki lesið reglurnar sem gilda á Hlemmi, sem hafa þó ekkert að gera við ofna (og ég hef oft iljað mér á umræddum ofn óáreitt). Hann lýgur miskunnarlaust að grey fólkinu að svona séu reglurnar bara, og þó svo að þau hlýði manninum eltir hann þau og heldur áfram að erta þau, og byrjar að skipa þeim að klæða sig í blautu fötin sín. Svona hélt þetta áfram og mér, og vonandi flestum öðrum sem urðu vitni að þessu, var gróflega misboðið**. Ég gat ekki annað en skammast mín fyrir land og þjóð, sjáandi þennan mann misnota vald sitt (sem er þó líklegast ekki meira spunnið í en að vísa fólki sem hagar sér illa út úr byggingunni) á svo ömurlegan og niðurlægjandi hátt. Afþví að ég var að missa af strætisvagninum mínum hafði ég ekki tíma til neins nema segja þessari misgáfuðu steraétandi mannfýlu að þetta væri óþarfa ókurteisi og strunsa út, neitandi honum um þau réttindi sín að henda mér út, en ef ég hefði haft tímann hefði ég eflaust hraunað yfir hann viðstöðulaust þangað til hann hefði kýlt mig, og þá gæti ég allavega huggað mig yfir því að geta lögsótt þetta fúlmenni.

Svo má náttúrulega láta dæluna ganga um lélega þjónustu, grimma bílstjóra, bílstjóra sem eru hálfsofandi undir stýri, mæta seint, tala ekki íslensku og svo framvegis. Ég skil svo sem að flestir bílstjórarnir eru harðir í horn að taka og óskaplega dónalegir, þeir sjálfir hafa eflaust frekar óspennandi laun, vinnudag, viðskiptavini og yfirmenn, og eru þannig fastir í einhverskonar spíral neikvæðra tilfinninga komandi úr öllum áttum. Það hata þá allir, yfirmennirnir og viðskiptavinirnir, alþingismennirnir sem hafa sífellt áhyggjur yfir líðan kjósenda sinna og jafnvel þeir sem eru svo heppnir að eiga einkabíl en bölva þeim þegar þeir þeysa niður akgreinar ætlaðar almenningssamgöngum á meðan dýrmæti einkabíllinn þeirra er fastur í umferðarþvögu.

Sjálf hef ég hugsað mér að stunda samgöngur, hvort sem þær eru almennings eða undir sterku þaki einkabílsins, af eins litlu magni og ég get, og halda mig í gangfjarlægð frá því sem ég þarf mest. Þetta er erfitt að gera, en þegar maður finnur fyrir hatri og ógleði við það eitt að ferðast í strætó þá er fátt rétt í stöðunni, býst ég við. En nú ætla ég að slútta þessu nöldri mínu og pakka saman einhverjum fötum, því á morgun er ég að fara til hinnar fjarlægu stórborgar London, og mun kannski komast að því hvort samgöngur þar séu á einhverslags æðra menningarstigi. Ég mun sakna ykkar allra, jafnvel þótt ég verði líklegast komin heim áður en að nokkurri manneskju detti í hug að ég hafi fengið sjálfa mig til þess að blogga og kíki á þennan guðyfirgefna stað.

Kv. Andrea

*Félag sem fólk getur skráð sig í til þess að strika undir hversu ástfangið það sé af frábærlega mengandi einkabílnum sínum. Stefnumál þess eru að bæta kjör péningagleypanna þinna í umferðinni og gera ódýrum og umhverfisvænum samgöngum erfiðara fyrir.

**Til þess að ítreka þessa yfirlýsingu þá getur maður í jakka einum saman á neðanjarðarlestastöð sem berar kynfæri sín gangandi vegfarendum ekki misboðið mér, og fátt annað þegar út í þá sálma er farið.

Efnisorð:

6 Comments:

Blogger Dynamic said...

HETZJAGD AUF KAPITALISTEN!!

þriðjudagur, júní 05, 2007 6:08:00 e.h.  
Blogger Benedikta said...

Ég hata líka strætó, heitt og innilega, og ferðast ekki í gula helvítinu nema í algjörri dauðans nauðsyn...

Mér fannst þetta samt skemmtilegt blogg, þú veist ég fýla það þegar þú nöldrar Andrea mín ;*

En góða skemmtun í London (þú sérð þetta samt örugglega ekki.. en ég skrifa þetta nú samt!)

Hringdu í mig þegar þú kemur tilbaka, og já, samgöngur í London eru snilld, Underground er sko alveg að gera sig :)

miðvikudagur, júní 06, 2007 6:27:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Fàdu ther hjol......
kv.erla

föstudagur, júní 15, 2007 4:53:00 e.h.  
Blogger Höjkur said...

niður með farartæki!

föstudagur, júlí 06, 2007 6:05:00 e.h.  
Blogger Unknown said...

Hvað ertu að rugla? Hvurslags ósanngirni er þetta? Ég elska all sem strætó gerir. Honum er ég þakklát.
Takk, strætó, fyrir að vera svona dýr.
Takk, strætó, fyrir að stoppa í mjóddinni í 50 mínútur þegar þú áttir að ganga á 20 mínútna fresti á prófatímanum og ollir því að ég hafði ekki tíma til að klára 3 blaðsíður í stærðfræðiprófinu mínu.
Takk, strætó fyrir að hafa látið mig mæta seint í vinnuna þegar þið breyttuð leiðunum og ég beið eftir þér vitlausu megin, óafvitandi.
Takk, trætó fyrir að vera á hálftímafresti, gerandi það nær ómögulegt að komast eitthvert án þess að bíða í 20 mínútur fyrst.
Takk, sérstaklega fyrir daginn í dag þegar tólfan hafði líka breytt um leið og ég eyddi síðasta strætómiðanum í gagnslausan klukkutíma með þér að mjóddinni, í árbæinn og svo aftur að mjóddinni með hinum ýmsu krókaleiðum, endandi með því að labba heim.

Mér fannst sagan þar sem þú gafst strætóbílstjóranum fingurinn afskaplega skemmtileg annars.

laugardagur, júlí 07, 2007 4:04:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

shady_: if i had 5 comps id put them in a circle and put pics and movies on each one
shady_: and twist around in my chair jackin off

föstudagur, september 21, 2007 12:48:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home